Á skógræktarráðstefnu NordGen sem haldin var fyrir skömmu í Helsinki var fjallað um þróun tækni og aðferða við plöntuframleiðslu svo sem vefjarækt og nýja lýsingartækni. Fræðst var um sáningu furu beint í skógræktarsvæði sem gæti verið áhugaverður kostur í skógrækt á Íslandi.
Fjölmargir stöldruðu við í bás Skógræktarinnar á Landbúnaðarsýningunni í Laugardalshöll sem hófst á föstudag og lauk í gær, sunnudag. Greinilegt er að áhugi á skógrækt er vaxandi. Mikið var spurt um skógrækt á lögbýlum og þá möguleika sem í henni felast. Gestir á sýningunni voru um 100.000 talsins sem er met.
Kristján Jónsson, skógræktarráðgjafi í starfstöð Skógræktarinnar á Ísafirði, tók nýlega við viðurkenningarskjali frá Umhverfisstofnun til sannindamerkis um að starfstöðin hefði tekið fyrsta græna skrefið í ríkisrekstri. Þar með hafa allar starfstöðvar Skógræktarinnar náð þessum áfanga.
Alþjóðasamtök skógrannsóknastofnana, IUFRO, hafa ákveðið að heimsþing samtakanna 2024 verði haldið í Svíþjóð. Í tengslum við þingið verða í boði ferðir til hinna norrænu landanna auk Eystrasaltsríkjanna og má búast við hundruð gesta velji að koma til Íslands til að kynna sér skógrækt og skógrannsóknir hér.
Hópur fjörutíu vísindamanna hefur skrifað undir yfirlýsingu um loftslagsmál sem birt hefur verið á vef samtakanna Climate and Land Use Alliance. Þar eru sett fram rök í fimm liðum fyrir því að skógar séu ómissandi þáttur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum á jörðinni. Framtíð jarðar sé algjörlega komin undir framtíð skóganna á jörðinni.