Heilbrigði skógar ræðst meðal annars af samspili trjáa við aðrar lífverur í vistkerfinu, einkum þær lífverur sem lifa á gróðri. Slíkar lífverur geta dregið úr vexti og þrótti plantna og kallast þá skaðvaldar. Þetta geta t.d. verið hryggdýr, hryggleysingjar (s.s. skordýr), sveppir, bakteríur eða veirur. Einnig ræðst heilbrigði trjágróðurs af samspili við aðra þætti umhverfis, svo sem veðurfarsþætti og mengun.

Plöntur hafa þróað með sér ýmis varnarkerfi til að berjast gegn dýrum og örverum sem sækja í þær. Þessi varnaraðlögun getur verið almenn, það er að segja margir eiginleikar sem sameiginlega mynda ákveðið mótstöðuþol gagnvart einum eða fleiri skaðvöldum. Hins vegar getur líka verið um algert ónæmi gagnvart ákveðnum skaðvaldi að ræða, en slíkt byggist oft á erfðafræði, ýmist erfðafræði plöntunnar eða skaðvaldsins. Ef breytingar verða á erfðamenginu, t.d. með stökkbreytingu hjá skaðvaldi, getur farið svo að vörn plöntunnar dugi ekki lengur og nauðsynlegt sé að leita nýrra afbrigða.

Íslensk skóglendi, hvort heldur það eru birkiskógar, náttúrulegir og gróðursettir, eða innfluttar trjátegundir, eru á margan hátt viðkvæm fyrir skaðvöldum í skógi. Íslenskur birkiskógur var um árþúsundir laus við stærri beitardýr og hafði því ekki jafnríka þörf fyrir að þróa með sér varnarefni og birki annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta kemur t.d. fram í því að íslenskur birkiskógur hefur minna af beiskju- og eiturefnum í blöðum en birkiskógar í Skandinavíu sem gerir það viðkvæmara fyrir beit, hvort sem það er beit skordýra eða stærri skepna.

Varnaraðlögun innfluttra trjátegunda sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi miðast við upprunasvæði trjátegundanna. Þegar tegundin er svo flutt í ný heimkynni getur það haft veruleg áhrif á hversu viðkvæm trjátegundin er fyrir skaðvöldum. Er þá einkum tvennt sem hafa ber í huga: 1) Eru skaðvaldar til staðar í nýju heimkynnunum sem ekki voru í þeim gömlu? Hér er t.d. hægt að taka dæmi um amerískar grenitegundir og sitkalúsina. Sitkalúsin er tiltölulega nýkomin til Ameríku og grenitegundir sem eru upprunnar þar, líkt og sitkagrenið, hafa ekki myndað varnarviðbrögð gagnvart lúsinni. Því verða skemmdir af völdum hennar oft áberandi. 2) Eru hagnýtar lífverur sem hafa gagnast trjátegundinni við varnir til staðar í nýju heimkynnunum? Eitt af því sem skiptir miklu máli við skógarheilsu er samspil skaðvalda við aðrar lífverur í umhverfi trjáa. Ýmsar lífverur, t.d. sjúkdómsvaldandi sveppir, þráðormar og sníkjuvespur, geta haldið skaðvaldi niðri og þannig hjálpað trjánum. Það er því mikilvægt að slíkar hagnýtar lífverur séu til staðar í nýju heimkynnunum til að halda jafnvægi í skóginum.

Breytingar á loftslagi geta haft mikil áhrif á heilbrigði trjágróðurs. Tengsl virðast vera á milli aukins hita hér á landi og fjölda nýrra skaðvalda. Einnig eru dæmi um að atferli skaðvalda sem hafa verið hér lengi hafi breyst á síðustu árum, samfara hlýnun. Þetta á ekki síst við um birkið, þar sem nýir skaðvaldar gera sig líklega til að valda verulegu tjóni á því, auk þess sem tíðni faraldra af „gömlum“ vágestum hefur aukist. Það er því mikilvægt að vakta nýja skaðvalda og áhrif þeirra á trjágróður hérlendis. Þá er mikilvægt að gera rannsóknir á þeim í því augnamiði að finna leiðir til að lágmarka skaðann.

Lögð er áhersla á:

Áherslur rannsóknasviðs sem snerta skaðvalda og heilbrigði skóga lúta að því að skilja eðli og ástæður þeirra vandamála sem koma upp í skógrækt og skógum af völdum skaðvalda. Jafnframt að afla þekkingar, með rannsóknum og vöktun, til þess að geta fundið leiðir til þess að draga úr skaða þeirra með svo sjálfbærum og hagkvæmum hætti sem unnt er. Með góðri vöktun á  skógum landsins eru einnig meiri líkur á því að nýir skaðvaldar finnist snemma svo hægt sé eyða þeim áður en þeir ná að dreifa sér um landið.

Hlutverk rannsóknasviðs

Skipta má hlutverki Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, í þrennt

1. Vöktun skaðvalda

Að fylgjast með útbreiðslu og dreifingu skaðvalda í íslenskum skógum, jafnt nýrra skaðvalda (sem borist hafa nýverið til landsins) sem og eldri skaðvalda (sem lengi hafa verið til ama í íslenskri skógrækt). Reynt er að fara a.m.k. eina vettvangsferð um landið að hausti til að meta stöðuna á landsvísu og óskað er eftir upplýsingum frá fagfólki og almenningi um allt land.

2. Rannsóknaverkefni tengd skaðvöldum

Rannsóknaverkefni á skaðvaldasviði skiptast í þrennt: Verkefni sem miða að því að þekkja lífsferil og hegðun viðkomandi skaðvalds. B: Verkefni sem miða að því að finna aðferðir til að draga úr skemmdum af völdum einstakra skaðvalda. C) Trjákynbætur gegn skaðvöldum.

3. Ráðgjöf og upplýsingar

Lögð er áhersla á að veita hagsmunaaðilum og almenningi ráðgjöf og upplýsingar um skemmdir á trjágróðri og leiðir til þess að draga úr tjóni af þeirra völdum.