Gróðureldar, eldvarnir, skógareldur, skógareldar, gróðureldur, sinubruni, sinueldar, kjarreldar, kjarreldurSkógræktin hefur tekið þátt í stýrihópi um forvarnaaðgerðir gegn gróðureldum á Íslandi. Hópurinn gaf vorið 2018 út handbók og opnaði vef um þessi efni.

Vefurinn Gróðureldar

Tilgangur vefsins grodureldar.is  er að kynna helstu atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga varðandi eld í gróðri. Þar eru fræðslusíður með miklum fróðleik, upplýsingum og leiðbeiningum um þessi efni. Einnig hefur verið gefin út handbók og lítið veggspjald sem hengja má á vegg til að vekja athygli á mikilvægustu atriðunum og hvar leita megi frekari upplýsinga.

Gróðureldar eru sem betur fer ekki algengir á Íslandi en geta ver­ið illviðráðanlegir ef eldur berst í þurran gróður. Á undanförnum áratugum hefur trjám verið plantað í miklum mæli á Íslandi. ­Ógrisjaður,­ þéttur skógur getur verið illfær vegna þess að greinar hans eru samfléttaðar frá skógar­botni og upp úr. Slíkur skógur er hættu­legastur með tilliti til gróðurelda. Veðurfar hefur mikil áhrif á hættu á gróðurbruna og miklir gróðurbrunar verða yfirleitt í lang­varandi þurrkum og hvassviðri. Eldur og reykur getur stefnt lífi fólks í hættu og valdið verulegu eignatjóni. Rétt viðbrögð og forvarnir geta þá skipt sköpum.

Starfshópinn um forvarnaaðgerðir gegn gróðureldum á Íslandi skipuðu fulltrúar Skógræktarinnar, Landssamtaka skógareigenda, Mannvirkjastofnunar, Bruna­varna Árnessýslu, Landssambands sumarhúsaeigenda og Verkís.

Frekari upplýsingar um gróðurelda og tengd málefni er víða að finna á netinu. Með loftslagsröskun sem nú steðjar að heiminum verða þessi málefni æ brýnni. Hér er hlekkur á gagnlegt efni um þær áskoranir sem felast í vaxandi veðurfarsöfgum á Norðurlöndunum.