Loftslagsbreytingar vegna losunar gróðurhúsa­lofttegunda eru hnattrænt viðfangs­efni. Því hafa ríki heims tekið saman höndum í þeirri baráttu sem nú á sér stað. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó árið 1992 var Ramma­­samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslags­breytingar undirritaður, m.a. af íslenskum stjórnvöldum. Með honum eru iðnríki skuldbundin til þess að gera áætlanir og grípa til að­gerða sem miða að takmörkun á losun gróðurhúsa­lofttegunda. Meginmarkmið samningsins er að halda styrk gróðurhúsa­loftteg­unda í andrúmsloftinu innan þeirra marka að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum.

Kyoto 1: 2008-2012

Bókun við Rammasamning Sameinuðu þjóðanna var samþykkt í Kyoto árið 1997. Samkvæmt Kyoto-bókuninni skuldbundu ríki í viðauka I (iðnríkin, þ.m.t. Ísland) sig til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í heild um 5,2% á tímabilinu 2008-2012, miðað við útstreymi þeirra árið 1990. Markmiðum mátti ná með: 1) Minnkun losunar, 2) bindingu kolefnis úr andrúmslofti, m.a. með skógrækt og landgræðslu og 3) kaupum á heimildum eða þátttöku í loftslags­vænum verkefnum í öðrum ríkjum.

Kyoto 2: 2012-2020

Nýtt samkomulag tók við af Kyoto-bókuninni eftir árið 2012 og gilti til 2020. Samkvæmt samningi Íslands og ESB fékk Ísland úthlutað heimildum til losunar 15.327 kt af CO2-ígildum á þessu átta ára tímabili. Á árunum 2013-2015 var losun Íslands, mæld samkvæmt samningi við ESB, 8.930 kt. Þetta þýðir að landið hafði þá þegar losað 58 prósent af heimildum sínum fyrir þetta átta ára skuldbindingartímabil, og það á aðeins þremur árum.

Parísarsamkomulagið: 2020-2030

Parísarsamkomulagið var gert á lokadegi Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóð­anna í París 12. desember 2015. Það er gert innan Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem fæst við útblástur gróður­húsa­lofttegunda frá og með árinu 2020. Megináherslurnar eru að halda hlýnun lofthjúps jarðar innan við 2°C miðað við hitastig fyrir iðnbyltingu en leggja þó allt kapp á að takmarka meðalhækkun hitastigsins við 1,5°C til að draga marktækt úr áhrifum loftslagsbreytinga og vá af völdum þeirra, auka­getu þjóða heimsins til að aðlagast neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga, efla þanþol vistkerfa og samfélaga og lágmarkalosun gróðurhúsalofttegunda og beina fjármagni að grænum lausnum sem lágmarka losun til framtíðar. Parísarsamningurinn markaði tímamót þar sem hann er fyrsta heildstæða samkomulagið sem þjóðir heims ná um sameiginleg markmið sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ísland ætlar í samvinnu við ríki Evrópusambandsins og Noreg, að draga úr losun um allt að 40% fyrir árið 2030 miðað við losun ársins 1990.

Hlutverk skóga og loftslagsbókhald

Skógar gegna mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í skógum eru veruleg tækifæri í bindingu kolefnis með aukinni ræktun og bættri umhirðu. Einnig veldur eyðing skóga um 20% af allri losun gróðurhúsa­loftteg­unda í andrúmsloftið. Sjálfbær notkun á skógarauðlindinni við framleiðslu á vörum og orku í staðinn fyrir framleiðslu sem byggð er á brennslu jarðefna­elds­neytis er líka mikilvægur þáttur.

Einnig er ljóst að loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á skóga, eins og aðrar lífrænar náttúruauðlindir, m.a. vegna hlýnunar, aukinnar tíðni fárviðra og nýrra skaðvalda. 

Mikilvægt er að unnið sé skipulega að öflun vísindalegra gagna um möguleika skógræktar sem loftslagsaðgerðar og aðlögun skóga að loftslagsbreytingum.  

Gera þarf grein fyrir skógum í loftslagsbókhaldi Íslands sem skilað er til Sameinuðu þjóðanna. Einnig eru íslensk stjórnvöld skuldbundin skv. grein 3.3. í Kyoto-bókuninni að telja fram bindingu CO2 í nýskógrækt og losun við skógeyðingu af mannavöldum miðað við viðmiðunarárið 1990. Skiptir sú binding miklu fyrir möguleika Íslands að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum.

Samningar og stefnumótun tengd viðfangsefni fagsviðs um loftslagsmál:

Hlutverk rannsóknasviðs

Það er hlutverk Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, að afla og miðla vísindalegra gagna um tengsl skóga og loftslagsmála og að vera stjórnvöldum til ráðgjafar þau mál. Til að koma til móts við auknar áherslur á rannsóknir og úttektir sem tengjast og styðja við bókhald gróðurhúsalofttegunda var í byrjun árs 2019 stofnuð Loftslagsdeild innan rannsóknasviðs um verkefni sem snúa beint að lofslagsmálum. 

  • að afla vísindalegra gagna og miðla upplýsingum um möguleika skógræktar sem loftslagsaðgerðar (mitigation)
  • að safna og miðla tölulegum upplýsingum um skóga fyrir lofslagsbókhald stjórnvalda
  • að miðla upplýsingum og eiga samstarf við íslensk stjórnvöld vegna viðræðna um loftslagsamninga
  • að afla vísindalegra gagna um aðlögun skóga að breyttu loftslagi (adaptation) (tengsl við fagsvið um erfðamál og vistfræði)

Íslensk skógarúttekt (ÍSÚ)