Skógræktin óskar eftir að ráða skógarvörð á Suðurlandi. Leitað er að öflugum einstaklingi með háskólapróf í skógfræði eða skógverkfræði. Skógarvörðurinn ber ábyrgð á daglegum rekstri þjóðskóganna á Suðurlandi, aflar sértekna, m.a. með úrvinnslu og sölu skógarafurða, sinnir málefnum ferðafólks, sér um eignir og tæki, áætlanir, úttektir og fleira. Skógarvörður heyrir undir skógarauðlindasvið stofnunarinnar.
Alþjóðleg ráðstefna um búfjárbeit verður haldin á Hótel Natura í Reykjavík dagana 12.-15. september. Ráðstefnan er styrkt af áætlun Norrænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar um sjálfbæra þróun. Norræni gena­bank­inn, NordGen, stendur fyrir ráð­stefn­unni ásamt Landgræðslu ríkisins.
Engjakambjurt, Melampyrum pratense, hefur nú öðlast þegnrétt meðal jurta sem vaxa villtar í íslenskri náttúru. Tegundin hefur þrifist um árabil í Vaglaskógi en var lengi vel greind sem krossjurt. Er­lend­is treystir engjakambjurt á samlífi við maura­teg­und og ekki er útilokað að sú tegund þrífist með henni í Vaglaskógi þótt það hafi ekki verið staðfest. Útbreiðsla jurtarinnar í skóginum bendir til að svo geti verið. Engjakambjurt lifir sníkjulífi á ýmsum trjátegundum.
Mikilvægt er að allir sem nota keðjusög læri réttu handtökin og tileinki sér rétt vinnubrögð til þess að afköst verði góð en ekki síður til að fyllsta öryggis sé gætt og komist verði hjá slysum. Landbúnaðarháskóli Íslands heldur reglulega námskeið um trjáfellingar og grisjun með keðjusög. Slíkt námskeið verður til dæmis haldið á Hallormsstað í október.
Sérfræðingar Rannsóknastöðvar Skógræktarinnar á Mógilsá slógu máli á hæstu tré landsins í síðustu viku. Sitkagrenitré á Kirkjubæjarklaustri sem mælst hefur hæst undanfarin ár heldur þeim titli og er nú komið í 27,18 metra hæð. Hæsta öspin á Hallormsstað mældis 25,46 metrar en gildast mældist evrópulerki á Hallormsstað, 67,5 cm í þvermál.