Rafmagn var tekið af bæjum á Þelamörk í Hörgárdal í fjórar klukkustundir í gær meðan tré voru höggvin undan háspennulínunni sem færir íbúum sveitarinnar rafmagn. Hætta var orðin á að tré gætu sveiflast utan í línurnar eða fokið á þær í ofviðrum. Meiningin er að þessi lína verði tekin niður innan fimm ára og lögð í jörð.
Sjónfræðingurinn og skógræktaráhugamaðurinn Rüdiger Þór Seidenfaden hefur nú hafið sölu á gleraugnaumgjörðum úr tré frá ítalska fyrirtækinu Woodone Eyewear. Umgerðirnar eru fisléttar og níðsterkar, gott dæmi um þær miklu framfarir sem hafa orðið í framleiðslu ýmissa vara úr timbri og öðrum trjáafurðum.
Í nýrri skógaráætlun Evrópusambandsins þarf að leggja áherslu á sjálfbæra skógrækt, stuðla að sem bestri nýtingu þeirra hráefna sem skógarnir gefa af sér og gera skógartengdan iðnað samkeppnishæfari svo ný störf skapist í greininni. Ályktun þessa efnis var samþykkt á Evrópuþinginu 28. apríl.
Samstarfshópur um ár jarðvegs 2015 efnir til mánaðarlegra örhádegisfyrirlestra um moldina og jarðveginn og leggur áherslu á að draga fram víðtækt mikilvægi jarðvegsins ís veit og borg. Annar fundurinn í þessari röð verður haldinn miðvikudaginn 6. maí og þar verður fjallað um moldina og mikilvægi hennar innan vistkerfa undir fyrirsögninni Mold og matur!
Málþing um Hekluskóga sem haldið var í Gunnarsholti 16. apríl tókst með ágætum og var vel sótt. Tilefni málþingsins var að tíu ár eru nú liðin frá því að undirbúningur að verkefninu hófst. Erindin sem flutt voru á málþinginu eru nú aðgengileg á vefnum. Í sumar verða um 280 þúsund plöntur gróðursettar á vegum Hekluskóga og áburðardreifing aukin, bæði með kjötmjöli og tilbúnum áburði. Þetta kemur fram á vef Hekluskóga.