Undanfarnar vikur hefur verið unnið við grisjun með grisjunarvél í greniskógi á Stálpastöðum í Skorradal. Afraksturinn verða rúmlega eitt þúsund rúmmetrar af trjáviði sem seldir verða Elkem á Grundartanga nema sverustu bolirnir sem verða flettir í borðvið. Viðnum er ekið út úr skóginum með dráttarvélum sem er ekki heiglum hent eins og sést í myndbandi sem fylgir þessari frétt.
Fulltrúar ríkisstjórna yfir 30 landa, þrjátíu fyrirtækja og 60 samtaka, meðal annars samtaka frumbyggja, hafa lýst stuðningi við New York yfirlýsinguna um skóga sem gerð var 23. september á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna. Með yfirlýsingunni var mörkuð sú stefna að draga úr skógareyðingu um helming fyrir árið 2020 og stöðva hana alveg fyrir 2030.
Skógræktarfélag Íslands og sjö aðildarfélög þess í Vestfirðingafjórðungi leggjast ekki gegn vegagerð um Teigsskóg í Þorskafirði. Félögin sendu frá sér ályktun þessa efnis í dag og segja engin náttúrufræðileg rök hníga gegn þessum nauðsynlegu vegabótum í landshlutanum.
Skógarbændur á Austurlandi kanna nú möguleika á stofnun afurðastöðvar sem annast myndi sölu á ýmsum nytjavið sem fellur til í fjórðungnum. „Menn hafa legið yfir þessu að undanförnu. Eru nú að fara yfir tölur og reikna sig áfram. Það er ljóst að koma þarf vinnslu og sölu skógarafurða í farveg á næstu árum,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi í samtali við Morgunblaðið í dag.
Þýskur grafískur hönnuður hefur þróað aðferð til að túlka mynstur árhringja í píanótónum. Mismunandi vaxtarhraði trjáa og vaxtarlag gefur mismunandi tónlist. Vægast sagt sérhæfð og nýstárleg skógarafurð!