Selja hefur verið ræktuð á Íslandi í meira en 70 ár og er hún sú víðitegund sem einna oftast verður að tré (en ekki runna) hér á landi. Ólíkt öðrum víðitegundum gengur fjölgun selju með græðlingum illa og því hefur notkun hennar í trjá- og skógrækt verið takmörkuð. Hún ætti þó tvímælalaust að koma til greina sem valkostur í skjólbeltarækt, yndisskógrækt og jafn vel timburskógrækt.

Selja þroskar stundum fræ á Íslandi og eru sjálfsánar plöntur til á örfáum stöðum. Fræið þroskast um mitt sumar, fýkur fljótt af trjánum og er söfnun þess því nokkuð erfið. Auk þess er fræið ekki í dvala og þarf að sá því strax. Það er m.ö.o. hægt að safna og sá seljufræi en fyrirhöfnin er svo mikil að fæstar gróðrarstöðvar gera það.

Til að minnka fyrirhöfnina gerði starfsfólk Skógræktar ríkisins á Vöglum tilraun með frærækt á selju í gróðurhúsi fyrir rúmum áratug síðan. Ungar plöntur í pottum voru teknar inn og fóru þær að blómstra og bera fræ strax á öðru ári, innan við tveggja metra háar. Mikið fræ þroskaðist á skömmum tíma og var því sáð beint í sáðflatir. Upp kom fjöldi plantna, sem seldar voru gróðrarstöðvum til áframhaldandi ræktunar. Haldið hefur verið áfram með þessa frærækt síðan.

Við frærækt á selju í gróðurhúsi eiga blómgun og fræþroski sér stað snemma vors. Seljurnar í fræhöllinni á Vöglum blómstruðu um páskana og verða ungplöntur í sáðflötum væntanlega tilbúnar til afhendingar eftir nokkrar vikur. Á myndinni má sjá karlblóm á ungri seljuplöntu.



Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna