53 ára sitkagreni úr Heiðmörkinni

Vinabæjartréð er sitkagreni af kvæminu Homer, beðplanta sem var á sínum tíma tvö ár í sáðbeði og tvö í dreifbeði í gróðrarstöð Skógræktarfélags Reykjavíkur í Fossvogi. Tréð var gróðursett 1960 og er því 53 ára gamalt samkvæmt árhringjamælingu. Við rúmmálsmælingu reyndist það vera 599 lítrar. Bundið kolefni í þessu tré er um 200 kg en bundið í koltvísýringi (CO2) nemur það 740 kg. Bíll sem blæs út 200 grömmum koltvísýrings á hvern ekinn kílómetra þarf að aka tæpa 3.700 km til að losa jafnmikið kolefni og bundið er í þessu tré. Hæð og sverleiki trésins var auðvitað mældur líka og reyndist það vera 12 m að hæð og 40 cm í þvermál. Tréð er gjöf frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í samstarfi við Reykjavíkurborg til Þórshafnar í Færeyjum jólin 2013.

Samkvæmt skýrslum Skógræktarfélagsins var tréð gróðursett á Elliðavatnsheiðinni í Heiðmörk af stúlknahópi Vinnuskóla Reykjavíkur ásamt starfsfólki Skógræktarfélags Reykjavíkur. Áburður sem stúlkurnar báru á var skarni. Skarni var þess tíma lífrænn áburður, eiginlega hálfmelt molta. Þetta var í raun ruslahaugar Reykvíkinga sem voru á þeim tíma að mestu lífrænn úrgangur og bætt við það fiskislógi og svo hitnaði í haugunum og allt gerjaðist. Stækjuna af þessum haugum lagði yfir bæinn í austlægum áttum. Þetta báru stúlkurnar á í Heiðmörk.

Unnið að því að reyra greinar trésins saman með köðlum og stroffum.

Dráttarvél (sem er nokkuð stór) notuð til að lyfta trénu upp á flutningabíl

Tréð komið upp á svokallað fleti á vörubílnum. Á fletinu ferðast tréð til Færeyja.


Þarna leggur tréð af stað úr Heiðmörk í sína langferð til Tórshavn.

Sitkagreni
Almennar upplýsingar teknar úr BS ritgerð Sæmundar Kr. Þorvaldssonar, Sitkagreni og sitkabastarður á Vestfjörðum 2010

„Sitkagrenið er stórvaxnasta og ein verðmætasta trjátegund sem vex í Alaska og þjóðartré ríkisins (Viereck & Little, 1972). Tegundin getur náð allt að 95 m hæð og þvermál stofna hafa verið mæld 6,5 m. Náttúrulegt útbreiðslusvæði tegundarinnar er strandsvæði Suðaustur-Alaska. Frá vesturströnd Cook-fjarðar og Kodiak-eyju í vestri og langt suður með vesturströnd N-Ameríku, gegnum Bresku-Kólumbíu í Kanada allt suður í Kalíforníu (Eckenwalder, 2009) (2.mynd). Sitkagrenið vex frá ströndum að skógarmörkum í strandhéruðum allt að 200 km inn í land. Oft í blandskógi með marþöll (Tsuga heterophylla (Raf) Sarg) og fjallaþöll (Tsuga mertensiana (Bong) Carr) en einnig í hreinum sitkagrenilundum. Tegundin er afar saltþolin og virðist geta þrifist þrátt fyrir „beina ágjöf“ a.m.k. ef aðstæður eru þannig að úrkoma þvær salt af nálum fljótlega. Nokkrar nafngiftir Alaskabúa á tegundinni bera þessum eiginleika gott vitni svo sem: Tideland Spruce og Coast Spruce (Viereck & Little, 1972).

Viður sitkagrenis þykir afar heppilegur í viðarkvoðu fyrir pappírsiðnað (e. pulp wood) og tegundin er meginuppspretta sögunarviðar á svæðinu. Viðurinn þykir afar sterkur miðað við rúmþyngd (400 kg/m3 ) og var því talinn heppilegur og mikið notaður á árum áður í flugvéla- og bátasmíði. Það á þó sérstaklega við um timbur úr hægvöxnum frumskógi (Blöndal 2004a). Sitkagrenið er mikið notað í skógrækt í öðrum löndum. Það er eitt mikilvægasta timburtré á vestanverðum Bretlandseyjum og Írlandi (Eckenwalder, 2009) auk Íslands, Danmerkur og um vestanverðan Noreg (Blöndal, 2004a). Sitkagreni er talið vera að breiðast út til vesturs síðustu áratugi og gamlar gróðursetningar rússneskra landnema á austanverðum og trjálausum Aljúta-eyjum (1805) hafa myndað köngla (Viereck & Little,1972) og sáð sér sums staðar út (Bruce, 1993). Vegna flatrar lögunar barrnála og líkra köngla var sitkagreni lengi talið náskylt japansgreni (Picea jezoensis) ásamt norður-amerísku tegundunum blágreni (Picea engelmannii), hvítgreni (Picea glauca) og broddgreni (Picea pungens).“

Heimildir: Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri
Skógræktarfélags Reykjavíkur

Myndir úr Heiðmörk: Sævar Hreiðarsson

Myndir frá Þórshöfn: Alan Brockie

Við afhendingu trésins í Þórshöfn í Færeyjum