Fræðslufundur í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri

Nú er komið að fimmta og síðasta fræðslufundinum í vetur í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri. Á dagskránni eru tvö erindi að þessu sinni. Rúnar Ísleifsson, nýráðinn skógarvörður á Vöglum, fjallar um uppkvistun á trjám í nytjaskógi, tilgang hennar og aðferðir, en Rakel Jónsdóttir, skógfræðingur hjá Norðurlandsskógum, tekur fyrir umræðu um blandskóga, kosti þeirra og galla, og veltir vöngum yfir praktískum atriðum svo sem hagkvæmni blandskóga og kortlagningu.

Bryddað verður upp á þeirri nýbreytni að allir gestir eru beðnir um að koma með uppáhaldsbókina sína tengda faginu. Leggja skal uppáhaldsbókina á þar til gert borð, þar sem hægt verður að glugga í gersemarnar um leið og gestir sporðrenna ljúfum veitingum sem fram verða bornar í hléi.

Gamla-Gróðrarstöðin við Krókeyri 26. mars 2014