Nýju tengslaneti á vegum SNS ætlað að bæta úr

Ákvarðanir um skógarmálefni ættu að byggjast á þeirri bestu vísindalegu þekk­ingu sem völ er á. En er það svo? Ef ekki, hvernig má þá miðla þekkingunni betur?

Að þessu er spurt í nýjasta tölublaði News & Views, fréttabréfs sem SNS gefur út. SNS stendur fyrir „Norrænar skógræktar­rannsóknir“, samstarfsvettvang um skóg­vísindaleg efni sem nýtur fjárveitinga frá Norrænu ráðherranefndinni. Almennt mark­mið vettvangsins er að stuðla að rann­sókn­um á þeim ýmsum hlutverkum sem skóg­ur­inn gegnir í sjálfbærri skógrækt og veita Norrænu ráðherranefndinni ráðgjöf um málefni sem varða skógrækt og skóg­rækt­ar­rann­sókn­ir.

Nýlega var efnt til nýs tengslanets innan SNS sem ætlað er að flýta fyrir því að rann­sóknar­niðurstöður í skóg­vísindum geti nýst skóg­rækt­endum. Tengsla­netið nær til Norður­landanna og nokkurra nágranna­landa við Eystrasalt.

Tengslanetið stóð fyrir vinnufundi í Varsjá í Póllandi í maí sem leið með tilstyrk SNS. Þar var spurt eins og hér að framan, hvernig brúa mætti bilið milli þeirra sem afla vísindalegrar þekkingar og þeirra sem vinna beint við skóginn. Enska yfirskriftin „Tools for improving science–practice interaction in forestry“ gaf upp taktinn fyrir hið nýja tengslanet sem einmitt er ætlað að efla tengslin milli vísinda og fræða annars vegar og þeirra sem starfa að skógræktarverkefnum og í úrvinnslu skógarafurða hins vegar.

Greinar upp úr erindum sem flutt voru á fundinum hafa nú verið teknar saman í skýrslu sem finnska skógræktar­ráð­gjöfin Tapio sá um að gefa út. Níu lönd eiga efni í skýrslunni. Skógfræðilegar rannsóknir nýtast í hverju landi fyrir sig til að þróa aðferðir í skógrækt, skógarumhirðu og skógarnytjum. Þróaða innviði og stofnanir er að finna í löndunum en nokkuð þykir skorta á samvinnu landa í milli. Meiningin með vinnufundinum og tengslanetinu nýja er einmitt að bæta þar úr.


Flókin stefnumál til úrlausnar

En hver er vandinn í raun? Stefnumál eru gjarnan víðtæk og flókin. Stakar rannsóknarniðurstöður gefa ekki heildarmynd. Í öðru lagi er fræðifólk líka mjög meðvitað um þá fræðilegu skyldu sína að tíunda alla þá fyrirvara og forsendur sem eru fyrir því að niður­stöður þeirra séu nýttar til verka í skóginum. Þetta flækir málin fyrir ráðgjöfum og skógræktendum sem vilja nýta nýjustu þekkinguna.

Þriðja vandamálið er að fræðimenn fá ekki næga umbun fyrir náið samstarf við ráðgjafana og skóg­ræktendurna sem starfa beint að skógræktar­verk­efnum. Margt bendir til að fræðimenn sem ganga langt í slíku samstarfi geti fallið í áliti meðal annarra fræðimanna.

En hvers vegna gengur þetta ekki betur en raun ber vitni? Í inngangi skýrslunnar eru líkur leiddar að því að kenna megi „línulegum samskiptum“ um það hversu hægt og illa hin nýja vísindalega þekking skilar sér til hagnýtra nota. Fræðilegum staðreyndum er miðlað til þeirra sem vinna að stefnumótun í trausti þess að þekkingin nýtist til að leysa úr málum. Betri árangri mætti ná með meiri sam­þætt­ingu, að samræða væri í báðar áttir milli fræðanna og stjórnsýslunnar. Bent er á það í skýrslunni að líklega sé milli­ríkja­nefndin um loftslagsbreytingar, IPCC, þekktasta dæmið um slíka samþættingu fræða og stjórnsýslu. Á öðrum sambærilegum sviðum sem snerta skógrækt skortir slíka samþættingu.

Felst lausnin í kerfisbundnum yfirlitsgreinum?

Að byggja ákvarðanir á vísindalegum gögnum þykir gott og sérstök áhersla er lögð á slík vinnubrögð í heilbrigðis­þjónustunni til dæmis. Þar gegna kerfisbundnar yfirlitsgreinar mikilvægu hlutverki og þykja gagnsæ og óvilhöll leið til að bera vísindalegar niðurstöður við tillögur, vísbendingar eða hugmyndir sem geta verið mjög ólíkar og jafnvel mót­sagna­kenndar.

Aldarfjórðungur er frá því að farið var að nýta kerfisbundnar yfirlitsgreinar skipulega í læknisfræði og heilbrigðis­þjónustu. Tilgangurinn var að ýta undir upplýstar ákvarðanir sem byggðar væru á sannreyndum niðurstöðum vísinda. Aðrar greinar á borð við félagsvísindi og umhverfisrannsóknir fetuðu í sömu fótspor og nú hafa skógvísindin tekið þessa stefnu einnig. Framarlega meðal þeirra sem vinna að því að gera skógræktendum kleift að byggja ákvarðanir sínar á bestu vísindalegu þekkingu hverju sinni er Dr. Gillian Petrokofsky. Hún er vistfræðingur, starfar við bresku stofnunina Oxford Long-Term Ecology Lab og er meðal greinarhöfunda í skýrslunni umræddu.

Markmiðið með kerfisbundnum yfirlitsgreinum er að komast fyrir ýmis vandamál sem fylgja stökum rannsóknum með því að líta almennum augum yfir útgefið efni með skipulegum og gagnsæjum hætti en þó án þess að vinsa úr niður­stöður sem eru í mótsögn hver við aðra. Þetta þýðir þó ekki að slíkar greinar þurfi að vera þykkir doðrantar. Raunar eru þær gjarnan styttri en greinarnar sem þær eru unnar upp úr. Aðalatriðið er að þær séu unnar út frá fastmótuðum forsendum þar sem skýrt er kveðið á um hvernig efnið skuli valið. Aðferðin og framsetningin fylgir mjög skýru formi. Þannig á vera hægt að forðast þá hlutdrægni sem óhjákvæmilega getur fylgt umsögnum sem settar eru fram með almennum texta. Kerfisbundnar yfirlitsgreinar draga fram sjálfstætt óvilhallt og hlutlægt mat á vísindalegum niður­stöðum og stuðla þar með að því að teknar séu upplýstar ákvarðanir í viðkomandi fagi.

Helstu atriði frá fundinum í Varsjá

  1. Ekki hæfir öllum hið sama. Mismunandi vettvang þarf fyrir ólíka hópa
  2. Skipuleggja má betur skilaboð skógræktenda til rannsakenda
  3. Umræða um friðun og trjáræktarmálefni yfirgnæfir umræðu um önnur málefni svo sem skógarhagfræði og skógræktarstefnu þrátt fyrir mikilvægi hinna síðarnefndu
  4. Áhrif miðlunar fara eftir gæðum hennar
  5. Rannsakendur þurfa að læra að verða góðir talsmenn og nýta sér til fulls nútímatæki til miðlunar
  6. Þörf er á sameiginlegum evrópskum vettvangi og alþjóðlegu samstarfi svo hvetja megi vísindafólk til meiri hagnýtra rannsókna í þágu skógræktar og skógarnytja

Texti: Pétur Halldórsson