Björn Halldórsson, bóndi á Valþjófsstöðum í Núpasveit, dreifir birkifræi á uppgræðslulandi. Ljósmynd…
Björn Halldórsson, bóndi á Valþjófsstöðum í Núpasveit, dreifir birkifræi á uppgræðslulandi. Ljósmynd úr Bændablaðinu.

Björn Halldórsson, skógar- og sauðfjárbóndi á Valþjófsstöðum í Núpasveit, stefnir að því að nýta lífrænt vottaða fiskimykju frá seiðaeldisstöð á Kópaskeri í skógrækt og landgræðslu á jörð sinni. Hann segir mikla sóun ef slíku efni er fargað enda mikil næring í því.

Sagt er frá þessu í Bændablaðinu 27. janúar og þar kemur fram að allt sé þetta á tilraunastigi. Tvær eldisstöðvar eru á landi við Öxarfjörð og mikið sem fellur til af lífrænum úrgangi. Frumkvæðið að trilrauninni kom frá seiðaeldisstöð Rifóss hf. á Kópaskeri en beðið er leyfis til dreifingar úrgangsins. Hann er lífrænn og vottaður af hálfu Mast og vottunarstofunnar Túns að sögn Jónatans Þórðarsonar, þróunarstjóra hjá Rifósi.

Vitnað erí Magnús H. Jóhannsson, teymisstjóra hjá Landgræðslunni sem segir þetta efni hafa komið vel út í fyrstu tilraun á grónum mel á Rangárvöllum en svona tilraunir séu langtímaverkefni og misjafnt efnainnihald í fiskimykju frá einum stað til annars.

Ef allt gengur að óskum ætlar Björn Halldórsson að nýta fiskimykjuna á 130 hektara afgirtu skógræktarsvæði þar sem hann sáir birki- og lúpínufræi á mela og langar að prófa fiskimykjuna einnig. Ef leyfi fæst byrjar hann í vor og dreifir mykjunni með haugsugu.

Margt er að gerast hjá Birni í skógræktar- og uppgræðslustarfinu sem hann vinnur í samvinnu við bæði Skógræktina og Landgræðsluna. Hann er meðal annars kominn í samband við norska fyrirtækið Brim Explorer sem hefur áhuga á að binda kolefni á Valþjófsstöðum.

Nánar í Bændablaðinu

 Texti: Pétur Halldórsson