Aðstaðan bætt vegna vaxandi umferðar hjólreiðafólks

Skógræktarfélag Reykjavíkur vinnur nú að því að merkja sérstakar hjólreiðaleiðir í Heiðmörk, alls 8 kílómetra. Jafnframt hefur hjólandi umferð verið beint frá fimm kíló­metra leið sem nú er sérmerkt göngufólki.

Nokkur titringur varð meðal fjallahjólafólks þegar fréttist að loka ætti leiðum sem marg­ir hafa hjólað og jafnvel keppst um að kom­ast sem hraðast um. Á vef Skógræktar­félags Reykjavíkur segir að Heiðmörk njóti sívaxandi vinsælda hjólreiðafólks en þar sé líka mikil umferð gangandi fólks og hesta­manna auk bílveganna sem þar liggja um. Svæðið er ekki aðeins skógræktar- og útivistarsvæði heldur einnig vatnsverndar­svæði.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur haft umsjá með Heiðmörk frá því að bæjarstjórn Reykjavíkur stofnaði formlega til hennar sem friðlands og skemmtigarðs fyrir Reykvíkinga árið 1950. Félagið ber því ábyrgð á útivistarsvæðinu og til að bregðast við vaxandi umferð hjólreiðafólks hefur verið ákveðið að bæta aðstöðuna til hjólreiða í Heiðmörk. Verið er að sérmerkja tæplega 8 km langan hjólastíg um miðbik Heiðmerkur og einnig hefur ein fjölfarnasta gönguleiðin verið sérmerkt fyrir gangandi umferð, um 5 km langur stígur sem liggur með fram Heiðmerkurvegi. Helsta ástæða þessara merkinga er að sögn félagsins að auka öryggi gesta Heiðmerkur með því að skilja á milli umferðar hrað­skreiðra hjólreiðamanna og gangandi fólks.

Á kortinu sést hjólaleið með bláum lit og gönguleið með bleikum. Kort: Skógræktarfélag Reykjavíkur.

Hjólreiðafólk velkomið

Fram kemur á síðu Skógræktarfélagsins að það fagni aukinni notkun svæðisins af hálfu hjólreiðafólks og fullur skilningur sé innan félagsins á mikilvægi Heiðmerkur fyrir þennan hóp. Í takti við vaxandi fjölda hjólreiðafólks og auknar vinsældir íþróttar­innar hyggist Skógræktarfélag Reykjavíkur vinna að fjölgun reiðhjólastíga í Heiðmörk á næstu misserum.

Samningur um bætta útivist og varðveislu vatnsbóla

Skilgreining og merkingar stíganna eru hluti af samningi sem Skógræktarfélag Reykjavíkur gerði við Orkuveitu Reykjavíkur fyrr í sumar. Í honum er m.a. fjallað um varðveislu vatnsbóla og vatnsverndarsvæða í Heiðmörk sem og bætta útivist og betri skilgreiningar á stígum og slóðum fyrir umferð um svæðið. Á hverju ári kemur um hálf milljón gesta í Heiðmörk til að njóta náttúrunnar, hvort sem er á reiðhjóli, hestbaki eða gangandi, segir á vef Skógræktar­félags Reykjavíkur

Texti: Pétur Halldórsson