Rætt við Jónínu skógarbónda á Mýrum Skriðdal í Tímariti Bændablaðsins

Í Tímariti Bændablaðsins sem kom út í byrjun mánaðarins er rætt við Jónínu Zophoníasdóttur, skógar­bónda á Mýrum í Skriðdal. Gróður­settar hafa verið um 200.000 plöntur og nú er næsta kynslóð farin að sýna skógræktinni áhuga og vinna að grisjun.

„Það eru miklir möguleikar fyrir hendi í skógræktinni og framtíðarhorfur bjartar. Ég hef fulla trú á því að innan fárra ára hafi hér skapast mörg störf í kringum afurðavinnslu. Flestir eru einnig farnir að gera sér grein fyrir mikilvægi kolefnisbindingar og því er nauðsynlegt að styðja við þessa atvinnu­grein sem kostur er svo hún fái svig­rúm til að vaxa og dafna og leggi að auki sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsvandann,“ segir Jónína meðal annars í samtali við Margréti Þóru Þórsdóttur, blaðamann Bændablaðsins.

Viðtalið er á þessa leið:

Jónína og maður hennar, Jón Júlíusson, hófu búskap á Mýrum árið 1976 og hafa búið þar félagsbúi ásamt Einari bróður hennar allar götur síðan. Í upphafi var þar blandaður búskapur, einkum kýr og kindur, en árið 1992 létu þau kindurnar frá sér en héldu kúabúskap áfram.

Þegar ég var unglingur starfaði ég á hótelinu á Hallormsstað sem þá var í húsnæði húsmæðra­skólans. Ég notaði hverja frístund sem bauðst til gönguferða um skóginn og man enn hálfri öld síðar eftir logninu og ilminum úr skóginum. Þessar góðu minningar hafa hvatt mig áfram, þær kveiktu áhuga minn á skógrækt og urðu til þess að við hófum skógrækt á okkar jörð, segir Jónína.

Tæplega 200 þúsund plöntur gróðursettar á jörðinni

Hún segir Skriðdal frekar snjóþunga sveit og liggi bærinn í 170 metra hæð yfir sjó. „Við höfðum áhuga fyrir að ganga inn í Héraðsskógaverkefnið, því með þátttöku í því hefðum við getað skap­að búinu meiri tekjur, aukið verðmæti jarðarinnar til framtíðar, tekið þátt í að auka skógar­þekju á Héraði og um leið aukið fjölbreytni í búskapnum,“ segir Jónína, en í fyrstu voru svörin á þá leið að tré gætu að öllum líkindum ekki þrifist í dalnum. Hann stóð ofar en sú hæðarlína sem markaði kjörlendi skógræktar samkvæmt útreikningum Skógræktar ríkisins.

Jónína segir að skömmu eftir að Jón Loftsson hafi tekið við starfi skógræktarstjóra hafi hann farið í rannsóknarleiðangra um sveitir og þá rekið augun í stór og vöxtug tré sem stóðu undir húsveggjum bæjanna í Skriðdal. Þótti honum þá harla ólíklegt að tré gætu ekki vaxið í dalnum. Því hafi verið ákveðið að færa skógarlínuna ofar, „og árið 1996 gátum við hafist handa við þessa nýju og spennandi búgrein,“ segir hún.

Frá því gróðursetning hófst í landi Mýra árið 1996 hafa þau hjón plantað tæplega 200 þúsund plöntum, einkum lerki í mela og móa. Einnig hafa þau plantað töluvert af birki, greni furum og öspum, en Jónína segir að aspir henti einkar vel á þeim blautu svæðum sem nóg sé af á Mýra­jörðinni.

Næstu kynslóðir áhugasamar

„Við fjölskyldan höfum að mestu séð um alla plöntun sjálf. Börn okkar þrjú voru lengi við það starf í sumarvinnu sem og vinir þeirra og aðrir unglingar í sveitinni þegar svo bar undir. Tengda­sonur okkar er nú farinn að grisja elstu skógræktarsvæðin og barnabörnin hjálpa til við plöntun og áburðardreifingu, þannig að segja má að nýjar kynslóðir séu að koma inn í þetta með okkur og hafi af skógræktinni bæði gagn og gaman,“ segir Jónína.

„Þegar sú stund er runnin upp, líkt og í okkar tilfelli, að næstu kynslóðir hafa áhuga fyrir að taka við, tekjur eru farnar að skapast af grisjun og ýmsar skapandi lausnir og hugmyndir í gangi um sölu afurða þess efnis sem til fellur, get ég ekki annað en horft björtum augum til framtíðar. Og þá er ég ekki bara að tala um framtíð skógræktar á Íslandi heldur einnig framtíð sveita lands­ins,“ segir Jónína.