Regnskógur á Borneó. Hvarfgjarnar lofttegundir sem trén í skógum heimsins gefa frá sér mynda örlitla…
Regnskógur á Borneó. Hvarfgjarnar lofttegundir sem trén í skógum heimsins gefa frá sér mynda örlitlar agnir þegar þær hvarfast við önnur efni í andrúmsloftinu. Þessar agnir auka endurskin sólarljóss út í geiminn og því hafa umræddar lofttegundir kælandi áhrif á loftslag jarðarinnar. Ef skógunum er eytt nýtur þessara áhrifa ekki lengur við og auk þess verður eftir land sem endurkastar minna sólarljósi út í geiminn og gríðarmikil losun koltvísýrings sem hvort tveggja eykur enn á hlýnunina. Mynd Wikimedia Commons/T. R. Shankar Raman.

Enn ein rökin fyrir viðhaldi og eflingu skógarþekju í heiminum

Alþjóðlegur hópur vísindafólks undir forystu háskólans í Leeds á Englandi hefur rannsakað hvaða áhrif hvarfgjarnar lofttegundir sem tré og aðrar plöntur gefa frá sér geta haft á loftslagið. Þær leiða í ljós að þessar lofttegundir kæla loftslagið á jörðinni. Skógareyðing dregur því úr þessum jákvæðu áhrifum trjánna á loftslagið.

Alþjóðlegur hópur vísindamanna undir forystu háskólans í Leeds á Englandi rannsakaði hvaða áhrif hvarfgjarnar lofttegundir sem tré og aðrar plöntur gefa frá sér hafa á loftslagið. Niðurstöður voru birtar nýlega í tímaritinu Nature Communications. Þar kemur fram að þessar hvarfgjörnu lofttegundir hafa kælandi áhrif á lofthjúp jarðarinnar. Það þýðir að áframhaldandi skógareyðing á jörðinni gæti leitt til enn meiri hlýnunar jarðar en spáð hefur verið því þegar skógarnir hverfa losnar minna af þessum hvarfgjörnu lofttegundum út í lofthjúpinn.

Aðalhöfundur greinarinnar, dr Catherine Scott, sem starfar við umhverfissvið Leeds-háskóla, segir í viðtali við vísindavefinn phys.org að hingað til hafi verið einblínt mest á annars vegar þá losun koltvísýrings sem verður þegar skógi er eytt og hins vegar þær breytingar sem verða á endurskini sólarljóss út í geiminn. Taka verði með í reikninginn að auk þess að taka í sig kolefni og láta frá sér súrefni gefi trén frá sér aðrar lofttegundir sem eigi þátt í flóknum efnaferlum í andrúmsloftinu og það hafi sínar afleiðingar.

Rannsóknarhópurinn kafaði ofan í hvernig þessar hvarfgjörnu lofttegundir geta með margvíslegum og flóknum hætti haft áhrif á loftslagið á jörðinni. Þegar þær losna út í andrúmsloftið hvarfast þær við önnur efni í loftinu og mynda örsmáar agnir. Þessar agnir geta endurvarpað sólarljósi út í geiminn og þar með kælt lofthjúpinn.

En hvarfgjörnu lofttegundirnar geta reyndar líka aukið magn ósons og metans í andrúmsloftinu. Bæði þessi efni eru mjög virkar gróðurhúsalofttegundir sem stuðla að hlýnun loftslagsins. Spurningin er því meðal annars sú, hvort vegi meira, áhrif hvarfgjörnu lofttegundanna til aukins endurvarps sólarorku út í geiminn eða gróðurhúsaáhrif ósons og metans.

Rannsóknarhópurinn notaði flókið tölvulíkan sem þróað var við Leeds-háskóla til að reikna út þessi mismunandi áhrif til hlýnunar eða kólnunar. Meðhöfundur greinarinnar, Dominick Spracklen, sem er prófessor í samspili lífhvolfs og andrúmslofts jarðar, segir vísindamenn hafa vitað lengi að tré gæfu frá sér hvarfgjarnar lofttegundir. Áhrif þessara lofttegunda á loftslagið hafi þó fram að þessu ekki verið rannsökuð nándar nærri jafnmikið og áhrifin af losun koltvísýrings. Með því að skilja þessi ferli betur segir hann að við fáum betri vitneskju um hvaða áhrif skógar jarðarinnar hafi á loftslag jarðarinnar. Um leið fáist betri mynd af afleiðingum þess að eyða skógum.

Í rannsókninni komst vísindafólkið að því að hvarfgjörnu lofttegundirnar sem trén gefa frá sér hafi samanlagt meiri áhrif til kælingar en hlýnunar. Með öðrum orðum hafa þær kælandi áhrif á lofthjúp jarðarinnar frekar en hitt. Jafnframt kemur fram að ef áhrifa hvargjörnu lofttegundanna nyti ekki við mætti búast við því að meðalhitinn á jörðinni væri nú þegar orðinn nærri einni gráðu hærri en nú er.

Í hitabeltinu er skógareyðingin mest á jörðinni. Því er mjög mikilvægt að komast að því hversu mikil áhrif þessara hvarfgjörnu lofttegunda eru í báðar áttir, til hlýnunar eða kólnunar. Rannsóknin sýnir að nauðsynlegt er að taka þessi efnaferli inn í þau loftslagslíkön sem notuð eru til að spá fyrir um hlýnun loftslagsins á jörðinni og þau líkön sem eiga að segja fyrir um afleiðingar þess að eyða skógi eða breiða út skóglendi jarðarinnar á ný.

Texti: Pétur Halldórsson