Í maí sögðum við frá dönskum nemum, þeim Ivan Christiansen og Whalter B.D.Knudsen sem hafa unnið hluta af verklegu námi sínu hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað og dvalið þar í sumar.

Síðustu vikur hafa þeir félagar unnið að smíði leiktækja í Hallormsstaðaskógi eftir fyrirmyndum úr námi sínu í Danmörku. Leiktækin eru gerð úr efni úr skóginum og eru staðsett á nýju almenningsgrillsvæði Skógræktar ríkisins við Stekkjarvík, um 4 km utan við þéttbýlið á Hallormsstað. Það er öll aðstaða fyrir hendi og upplagt að koma þar við á góðviðrisdegi, grilla og njóta útivistar í skóginum. Þá er upplagt að taka með sér körfu og tína sveppi í næsta nárgenni.