Töluvert af landi var jarðunnið til skógræktar á árinu. Jarðunnið var á 23 jörðum, samtals um 265 ha, þar af 226 ha með skógarstjörnu (vélflekkjara) og 39 ha með skógarplógi (breyttum einskera).  Ekkert votlendi var ræst fram með skurðgreftri á vegum verkefnisins enda er það í mótsögn við gildandi náttúruverndarsjónamið.  Breyting varð á greiðslufyrirkomulagi og er nú jarðvinnsluverktökum greitt eftir hektarafjölda en ekki vinnutímum eins og áður. 

Við breytingar á fyrirkomulaginu voru allir helstu jarðvinnsluverktakarnir á svæðinu boðaðir á fund.  Eftir ábendingum fundarins var sett upp kerfi sem byggir á 3 erfiðleikastigum jarðvinnslu:

1. Grunntaxti
2. Grunntaxti + 1 álagsflokkur = 20% álag á grunntaxta
3. Grunntaxti + 2 álagsflokkar = 30% álag á grunntaxta

Þeir þættir sem hafa áhrif á álagsflokka eru:

· Bratti (halli meira en 20 %)
· Skorningar
· Stórgrýti
· Birkiskógur

Grunntaxtinn 2003 var 9.843,- kr/ha  fyrir bæði vélflekkingu og plægingu. 

Að frumkvæði Sæmundar Guðmundssonar á Gíslastöðum fóru ráðunautar Skógræktar ríkisins og Héraðsskóga í vettvangsferð með honum um Hérað í þeim tilgangi að skoða árangur af eldri plægingum (sjá viðauka: plægingarferð).  Niðurstöður ferðarinnar voru að mestu leiti eins og við mátti búast, þ.e. að gras og bleyta eru erfið viðfangs.  Það sem kom á óvart í þessari ferð er hversu mikil áhrif lega strengjanna gagnvart vindáttum hefur að segja.  Það réði sumstaðar úrslitum um hvort gróðursetning heppnaðist eða ekki.

Þar sem vinnufyrirkomulagið (kr/ha) er nýtt af nálinni verður að taka það til endurskoðunar árlega næstu árin, breyta og bæta eftir því sem þörf er á.