Ísleifur Sumarliðason skógarvörður.
Ísleifur Sumarliðason skógarvörður.

Var skógarvörður á Vöglum í 38 ár

Ísleifur Sumarliðason, skógtæknifræðingur og fyrrverandi skógarvörður á Vöglum, lést í Reykjavík mánudaginn 29. júní, 88 ára að aldri. Ísleifur fæddist á Akranesi 12. nóvember 1926 og ólst upp þar og í Reykjavík. Foreldrar hans voru Sigríður Guðmundsdóttir Thorgrímsen og Sumarliði Halldórsson skógfræðingur sem var fyrsti skógarvörðurinn á Vesturlandi, 1910-1914.

Árið 1949 var Ísleifur ráðinn skógarvörður á Norðurlandi með aðsetur á Vöglum í Fnjóskadal og gegndi hann því embætti í 38 ár, allt til ársins 1987. Þegar hann tók við starfinu var hann nýkominn heim úr þriggja ára námi í skógtæknifræðum í Danmörku. Á Vöglum kynntist hann eftirlifandi konu sinni, Sigurlaugu Jónsdóttur frá Skarði í Dalsmynni, og eignuðust þau sex syni og eina dóttur. Einn sonanna, Rúnar Ísleifsson, er núverandi skógarvörður á Vöglum og tók við embættinu vorið 2014.

Eftir að Ísleifur lét af störfum á Vöglum fluttu þau hjónin í Mosfellsbæ þar sem þau keyptu land og settu upp gróðrarstöð. Stöðina ráku þau í um tvo áratugi og framleiddu þar garðplöntur af ýmsum toga.

Útför Ísleifs verður gerð frá Neskirkju í Reykjavík þriðjudaginn 7. júlí kl. 13. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.

Skógrækt ríkisins minnist Ísleifs Sumarliðasonar með þakklæti fyrir framlag hans til skógræktar á Íslandi og vottar fjölskyldu og ástvinum samúð við fráfall hans.