Á rafrænum fundi sem haldinn verður á alþjóðlegum degi skóga 21. mars verður rætt um hlutverk skóga í þeirri viðleitni að tryggja sjálfbæra framleiðslu og neyslu í framtíðinni. Öllum er frjálst að fylgjast með fundinum sem hefst kl. 11 að íslenskum tíma og stendur til kl. 14.

Fundurinn er dagskrárliður á heimssýningunni miklu, Expo 2020, sem stendur yfir í Dúbaí og fer fram í sænska skálanum The Forest á sýningunni en verður líka í beinni útsendingu á vefnum. Hægt verður að fylgjast með á ensku og nokkrum öðrum tungumálum. Svíar búa sig þessi misserin undir að halda heimsráðstefnu skóga árið 2024 og taka Íslendingar að nokkru þátt í þeim undirbúningi ásamt hinum norrænu þjóðunum.

Skráning á rafrænan fund

Að fundinum í Dúbaí á mánudag standa FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og IUFRO sem er alþjóðasamtök skógrannsóknastofnana ásamt heimsráðstefnu skóga 2024. Sænski landbúnaðarháskólinn SLU hefur veg og vanda af undirbúningi heimsráðstefnunnar og stendur fyrir fundinum á alþjóðlegum degi skóga þar sem framáfólk ræðir um skóga og sjálfbæra framleiðslu og neyslu.

Heimurinn stendur frammi fyrir fordæmalausum viðfangsefnum um þessar mundir og þar vega hæst þær loftslagsbreytingar sem nú eru í gangi. Þessi viðfangsefni eru ógn við velsæld fólks og náttúru og aðgerðir þola enga bið.  Vinna verður að nýstárlegum og skapandi lausnum sem leiða mannkynið á veg til friðar og velsældar á heilbrigðri jarðarkringlu.

Á umræddum fundi 21. mars sest framáfólk í pallborð og ræðir hvernig skógartengd nýsköpun, hagkvæm nýting auðlinda, skógartengdar vörur og vistkerfisþjónusta getur stuðlað að sjálfbærum lifnaðarháttum og flýtt fyrir umskiptum yfir í sjálfbærari neyslu og framleiðslu. Slík verkefni hjálpa okkur að ná alþjóðlegum markmiðum um sjálfbærni, heilsu og farsæld og ýta á eftir breytingum yfir í grænt og kolefnissnautt hagkerfi.