Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna, fjallar um kvæmatilraun með risalerki.

Vegna tegundafátæktar, smæðar og vaxtarlags innlendra trjáa hefur leit að nothæfum tegundum erlendis frá verið þáttur í íslenskri skógrækt frá upphafi. Að baki hverri trjátegund sem hér er gróðursett í skógrækt er margra áratuga tímabil reynsluöflunar og rannsókna. Hingað hafa bæði borist tegundir sem lofuðu góðu en stóðust síðan ekki þær væntingar sem gerðar voru til þeirra (t.d. skógarfura) og tegundir sem voru erfiðar í upphafi en reyndust síðan góðar (t.d. sitkagreni). Því fer fjarri að allar áhugaverðar trjátegundir hafi verið fullreyndar í skógrækt á Íslandi, ekkí síst í ljósi hlýnandi loftslags. Því heldur leitin áfram.

Risalerki (Larix occidentalis Nutt.) er, eins og íslenska heitið gefur til kynna, stórvaxnasta lerkitegund í heimi. Það er mikilvægt timburtré í heimkynnum sínum í  klettafjöllunum sitt hvoru megin landamæra Kanada og Bandaríkjanna, þar sem það vex í bland við stafafuru (Pinus contorta), myrkárþoll (Pseudotsuga menziesii), hvítfuru (Pinus monticola) og fleiri stórvaxnar trjátegundir. Það vex í því hæðarbelti í fjöllunum sem er næst fyrir neðan blágrenis-fjallaþinsbeltið (Picea engelmannii – Abies lasiocarpa). Segja má að aðstæður í blágrenis-fjallaþinsbeltinu samsvari nokkurn veginn veðurfari á Íslandi en í myrkárþollar-risalerkibeltinu bjóðast lengri og hlýrri sumur. Risalerki hefur ekkert verið notað í skógrækt á Íslandi og það er afar sjaldgæft í görðum. Þó er hér á landi nokkur hópur trjáa þessarar tegundar sem stendur sig sæmilega. Auk þess eru hér á landi myrkárþollar ættaðir frá heimaslóðum risalerkis sem náð hafa allt að 20 m hæð á 70 árum. Loks ber að nefna að evrópulerki (Larix decidua) úr svipaðri hæð í Alpafjöllum og þeirri þar sem risalerki vex í Klettafjöllum, hefur náð sæmilegum þroska hérlendis. Það er því ástæða til að ætla að finna megi kvæmi innan útbreiðslusvæðis risalerkis sem geta lifað og vaxið nægilega vel á Íslandi til að þau nýtist a.m.k. í trjárækt ef ekki skógrækt.

Í því skyni að kanna betur hvort finna mætti risalerkikvæmi sem gætu vaxið sæmilega á Íslandi var gróðursett til kvæmatilraunar árið 2000. Niðurstöður mælinga sem gerðar voru á henni árið 2001 og á í tímabilinu 2008-2010 eru birtar í Ársriti Skógræktar ríkisins fyrir árið 2009.