Óþekktur skógræktarmaður stendur við Braathens-steininn á Stálpastöðum í rauðgreniskógi sem gróðurse…
Óþekktur skógræktarmaður stendur við Braathens-steininn á Stálpastöðum í rauðgreniskógi sem gróðursettur var með styrk frá norska skipakónginum Ludvig G. Braaten. Myndin er líklega tekin um 1965.

Mikil breyting á hálfri öld

Í sumar voru grisjaðir um eitt þúsund rúmmetrar af trjáviði úr skóginum á Stálpastöðum í Skorradal. Í þessum viði felast mikil verðmæti og eftir grisjunina er skógurinn enn verðmætari til ræktunar á hágæðaviði. Að sjálfsögðu fengist enginn viður úr þessum skógi ef ekki væri fyrir framsýni og dugnað þeirra sem gróðursettu á sínum tíma eða stuðluðu að gróðursetningunni.

Myndirnar sem hér fylgja eru einmitt teknar með hálfrar aldar millibili á nákvæmlega sama stað. Steinninn sem sést á þeim báðum er til minningar um norska skipakónginn Ludvig G. Braathen sem studdi ríkulega við skógrækt á Íslandi eftir miðja síðustu öld. Hann færði Skógrækt ríkisins 10.000 norskar krónur að gjöf til skógræktar árið 1956. Í kjölfar þess voru gróðursettir rauðgrenilundir á Stálpastöðum og í Haukadal og gjafaféð frá Braathen nýtt til þess. Báðir þessir lundir eru kenndir við gefandann og kallaðir Braathenslundir. Báðir eru þeir líka merktir með sérstökum steini, hvor á sínum stað.

Í haust þurfti að færa steininn á Stálpastöðum örlítið til svo aka mætti timbri úr skóginum og því er hann skakkur eins og sakir standa. Steinninn verður þó lagaður fljótlega og gengið frá honum sómasamlega. Að öllum líkindum er fyrri myndin tekin um 1965. Hana tók Hákon Bjarnason skógræktarstjóri en fylgir sögunni hver maðurinn er sem á myndinni stendur, stoltur af efnilegum trjágróðrinum. Upplýsingar um það væru vel þegnar. Nýju myndina tók Þröstur Eysteinsson í sumar sem leið og á henni er ekki síður stoltur skógræktarmaður, Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi.

Eldri mynd: Hákon Bjarnason
Yngri mynd: Þröstur Eysteinsson
Texti: Pétur Halldórsson