Skógarverðir, skógræktarráðunautar og sérfræðingar funduðu í Skorradal 19. maí s.l. um hugsanlegar neikvæðar afleiðingar þeirrar miklu aukningar á grisjun skóga sem varð á síðasta ári og heldur áfram. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem tekin var á Stálpastöðum í Skorradal, eru skógar landsins í miklum vexti þessi árin og skila af sér verulegu magni timburs við grisjun. En líkur á að tré brotni eða velti um koll í hvassviðri aukast í kjölfar grisjunar, mismikið eftir trjátegundum, hæð trjánna, jarðvegi, landslagi og hversu mikið var grisjað.

Fundurinn var haldinn til að ræða líkur á stormfalli og hversu mikið væri óhætt að grisja þannig að ekki verði óásættanlegur skaði. Þá var gengið um Stálpastaðaskóg og grisjanir undanfarinna ára skoðaðar. Óhætt er að segja að vöxtur sitkagrenis í Skorradal og víðar er tilkomumikill og framar vonum bjartsýnasta skógræktarfólks. Niðurstaða fundarins var að hefja vöktun á skógum í kjölfar grisjunar til að fylgjast með stormfalli. Einnig mun Þorbergur Hjalti Jónsson á Mógilsá vinna með forrit frá bresku ríkisskógræktinni sem spáir fyrir um líkur á stormfalli og aðlaga það íslenskum aðstæðum þannig að hægt verði að nota það sem hjálpartæki við ákvarðanatöku um grisjun.

Allir á fundinum voru sammála um mikilvægi bilunar og grisjunar tiltölulega snemma, þ.e.a.s. mikilvægi þess að skógar séu ekki látnir vaxa með of miklum þéttleika trjáa of lengi, því þá fyrst eykst hættan á stormfalli þegar loks er grisjað.   


Mynd og texti: Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri Þjóðskóganna