Forstöðumenn Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt voru boðaðir til fundar  í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á föstudaginn var. Þar var greint frá því að ekki hefði tekist að koma ákvæði um sameiningu Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefnanna í svokallaðan bandorm með fjárlögum. Því er ljóst að sameiningin verður ekki um áramótin eins og að var stefnt. Þess í stað er meiningin að leggja fram sérstakt frumvarp um sameininguna á vorþingi. Drög að því frumvarpi eru orðin til í ráðuneytinu og eru helstu efnisatriði þess tíunduð hér að neðan.

Á fundinum kom einnig fram að gert væri ráð fyrir að til yrði ný stofnun sem kölluð yrði „Skógræktin“. Allar eignir Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefnanna myndu flytjast til þeirrar nýju stofnunar og allt núverandi starfsfólk þessara stofnana fengi störf hjá nýrri stofnun. Áður en af sameiningu getur orðið þarf Alþingi þó að samþykkja frumvarpið, en samkvæmt frumvarpsdrögunum er stefnt að sameiningu 1. júlí 2016. Einnig er mögulegt að 1. september verði fyrir valinu.  

Ráðherra skipar á næstunni nýjan skógræktarstjóra úr hópi þeirra ellefu sem sóttu um stöðuna. Það verður eitt meginverkefna nýs skógaræktarstjóra að skipuleggja sameininguna og móta hina nýju stofnun.


Ákvæði til bráðabirgða í lögum um skógrækt:

Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Skógræktin tekur við eignum, réttindum og skyldum Skógræktar ríkisins frá og með 1. júlí 2016.

Öll störf hjá Skógrækt ríkisins eru lögð niður frá og með 1. júlí 2016. Starfsmönnum Skógræktar ríkisins skal boðið starf hjá hinni nýju stofnun. Þeir kunna þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu. Við ráðstöfun þessara starfa þarf ekki að gæta að auglýsingaskyldu 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Ráðherra skal flytja skógræktarstjóra Skógræktar ríkisins í embætti skógræktarstjóra Skógræktarinnar, sbr. 36. gr. laga nr. 70/1996.

Ákvæði til bráðabirgða í lögum um landshlutaverkefni í skógrækt:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Skógræktin tekur við eignum, réttindum og skyldum Landshlutaverkefna í skógrækt frá og með 1. júlí 2016.

Öll störf hjá Landshlutaverkefnum í skógrækt eru lögð niður frá og með 1. júlí 2016. Starfsmönnum Landshlutaverkefnanna skal boðið starf hjá hinni nýju stofnun. Þeir kunna þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu. Við ráðstöfun þessara starfa þarf ekki að gæta að auglýsingaskyldu 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.