Vopn í baráttunni gegn skógareyðingu í heiminum

Taílendingar hyggjast stórauka skóggræðslu í landi sínu og rækta upp skóglendi á stórum svæðum þar sem náttúrlegum skógum hefur verið eytt. Eitt beittasta vopnið í þeirri baráttu verða fræbombur sem varpað verður úr flugvélum í milljónatali. Gert er ráð fyrir að árangurinn af slíkum lofthernaði verði um 70%.

Um allan heim er nú hugað að því hvernig breiða megi út skóga og auka skógarþekju á ný. Ástæðurnar geta verið margvíslegar. Jarðvegseyðing ógnar landbúnaði og matvælaframleiðslu. Við heyrum af flóðum og jafnvel þótt ekki sé víst að fólk tengi þau við skóga er víða hægt að rekja vaxandi flóðahættu til skógareyðingar. Þegar skóginum er eytt rennur vatn hraðar ofan af fjöllum og hæðum og til sjávar. Í miklum rigningum vantar skóginn til að hægja á rennsli vatnsins. Með vatninu skolast næringar- og jarðvegsefni burt og eftir stendur snauðara land. Það er ávísun á fátækt fólksins sem þar býr. Þegar skógum er eytt dregur úr mætti lífkerfisins, dýra- og plöntutegundum fækkar, smádýralíf verður fátæklegra og hringrásir lífsins hægjast eða stöðvast.

Dreifing trjáplantna með flugvélum er hugmynd sem víða hefur verið til umræðu, til dæmis í Taílandi. Þar er nú áformað að rækta tré í milljónatali með því að dreifa fræjum úr flugvélum yfir víðáttumikil svæði. Aðferðina mætti kannski kalla fræárásir eða fræhernað með tilvísun til enska hugtaksins „seed bombing“. Með þessu móti vonast menn til að gera megi við landsvæði þar sem skógi hefur verið eytt.

Fræjum trjáa sem henta á viðkomandi svæðum er komið fyrir í kúlum úr lífrænu og niðurbrjótanlegu efni og varpað úr flugvélum í þúsundavís.

En það er ekki nóg að dreifa berum fræjunum úr flugvélinni. Með því móti er ekki gott að vita hvar fræin lenda og ekki víst að þau hafi næga næringu eða raka til að spíra og festa rætur. Þess vegna hafa verið þróaðar svokallaðar fræsprengjur. Fræjum trjáa sem henta á viðkomandi svæðum, gjarnan upphaflegum tegundum sem þar uxu áður, er komið fyrir í kúlum úr lífrænu og niðurbrjótanlegu efni. Kúlurnar þola hnjask nægilega vel til að skila sér heillegar til jarðar. Flogið er með stóra farma af þessum kúlum yfir landsvæðið sem græða á upp með skógi og „sprengjurnar“ látnar falla. Hægt er að dreifa um 100 þúsund fræbombum í hverri ferð. Taílendingarnir telja að um 70% kúlnanna geti orðið að trjám og ef það reynist rétt gæti þarna verið komið beittasta vopnið í baráttunni við skógareyðingu þar í landi.

Alls er talið að samanlagt flatarmál þess skóglendis sem eytt er á hverju ári í heiminum sé um 1,3 milljónir ferkílómetra. Það er þrettánfalt flatarmál Íslands. Á móti kemur að annars staðar stækka skógarnir. Þessa tölu má því ekki skilja sem svo að skóglendi í heiminum minnki um 1,3 milljónir ferkílómetra. Vandinn er samt sem áður mikill og mikilvægt að finna aðferðir, bæði til að draga úr skógareyðingu og til að endurrækta skóglendi þar sem því hefur verið eytt.

Hvort lofthernaður með fræbombum er vænleg leið til skóggræðslu á auðnum Íslands verður ekki skorið úr um hér en aðferðin er allrar athygli verð. Hugsanlega mætti nýta lífrænan úrgang til að búa fræbomburnar til. Þannig fengju fræin svolítið nesti til að koma sér af stað og í þessu nesti mætti gjarnan vera svepprótarsmit og jafnvel fræ af niturbindandi plöntum eins og hvítsmára sem auka myndi frekar lífslíkur trjánna í næringarsnauðum auðnum. Þar sem ekki næðist samstaða um að rækta nytjaskóga með þessum hætti mætti notast við birki en annars staðar gæti þetta nothæf verið aðferð til að koma upp arðbærum timburskógum.

Myndband um fræbombuhernað í Taílandi

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson